Ekki í þágu íslenskra hagsmuna

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra.
Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra. mbl.is/RAX

„Ég tel að það væri ekki í þágu íslenskra hagsmuna að slíta stjórnmálasambandi við Breta,“ sagði Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, eftir fund með staðgengli sendiherra Bretlands á Íslandi í gær. Hann segir viðræður við Breta vegna Icesave-reikninganna vissulega á viðkvæmu stigi en jafnframt að þær séu í öðrum og pólitískari farvegi en áður var.

„Við höfum farið til Breta með ákveðnar hugmyndir sem þeir eru að skoða og þessa daga og vikur hefur okkar aðalsamningamaður, Svavar Gestsson, átt fundi bæði með aðalsamningamanni Breta og Hollendinga, m.a. í Kaupmannahöfn. Á þessu stigi er ekki annað hægt að segja en að þessar þjóðir tvær eru að skoða og fara yfir þau gögn sem við höfum látið þau fá. Ég er þeirrar skoðunar að málið sé vissulega á viðkvæmu stigi en hins vegar í mun farsælli farvegi en það var áður. Við höfum tekið ákveðið frumkvæði, komið fram með hugmyndir sem þeir eru að minnsta kosti að skoða. Þær hugmyndir ef að veruleika verða skipta Íslendinga töluvert miklu máli en við teljum einnig að þær myndu gera það að verkum að þeir sem áttu innistæður og sækja undir íslensk stjórnvöld myndu einnig koma betur út úr þessu,“ sagði Össur.

Össur segir engu lofa um niðurstöðu viðræðnanna en hins vegar hafi árangur náðst. „Áður voru fortakslausar kröfur á hálfu [Breta] gagnvart tilteknum hlutum. Nú er verið að skoða hugmyndir frá Íslandi. Það er árangur sem hefur náðst. Áður var stál í stál og þessir ágætu herramenn hlustuðu ekki á okkur. Þeir gera það núna.“ Hann segir bæði Breta og Hollendinga vera með í höndunum útreikninga og ákveðnar tillögur frá íslenskum stjórnvöldum sem verið sé að meta og skoða. „Áður vildu þeir ekki einu sinni hlusta.“


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka