Lögreglan á Selfossi varar ökumenn enn við að aka með hjólhýsi, eða aðra aftanívagna eftir veginum undir Ingólfsfjalli. Tvö hjólhýsi fuku út af veginum í gærkvöld og enn er hvasst í hviðum undir fjallinu. Eitt hjólhýsi fauk út af veginum laust eftir hádegi.
Hjólhýsin eru mjög mikið skemmd ef ekki ónýt. Þá segir sunnlendingur.is frá því að kerra hafi fokið á hliðina, skömmu áður en komið er inn til Selfoss.
Fjölmargir hafa lagt leið sína austur fyrir fjall í gær og í dag til að sækja hjólhýsi, fellihýsi og tjaldvagna úr geymslum eftir veturinn. Lögregla hvetur fólk til að fara varlega og fylgjast með veðurspá.