Falleinkunn á ófædda stjórn

mbl.is/Ómar

„Sagt er, að með nýjum stjórnarsáttmála verði lagður grunnur að efnahagsráðuneyti. Verður það undir forsætisráðherra? Ef ekki, er um vantraust á Jóhönnu Sigurðardóttur að ræða og hæfni hennar til að sinna þessu meginhlutverki forsætisráðherra,“ skrifar Björn Bjarnason, fyrrverandi dóms- og kirkjumálaráðherra.

Björn segir nálega hálft ár liðið, án þess að sýnilegt sé, að stjórnvöld hafi náð nokkrum tökum á fjármálastjórn ríkisins. Vandinn hverfi hins vegar ekki með því að gera ekki neitt, hann þurfi að leysa og með þeim mun harkalegri hætti síðari hluta ársins.

„Það verður ekki gert með niðurskurði í venjulegum skilningi þess orðs heldur kerfisbreytingu á einhverjum sviðum. Trúir því einhver að Samfylking og vinstri-grænir búi yfir þreki til að takast á við þetta erfiða viðfangsefni á viðunandi hátt?,“ spyr Björn Bjarnason.

Hann segir ennfremur að á meðan Alþingi sat, hafi átökum við fjárlagahallann verið ýtt til hliðar með því að tala um breytingu á stjórnarskránni. Eftir kosningar sé þeim ýtt til hliðar með því að tala um aðild að Evrópusambandinu. Hvorugt komi til móts við skilyrði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins eða nýskipaðrar peningastefnunefndar í Seðlabanka Íslands, sem gefi nú út stefnuskjal við vaxtaákvarðanir sínar og setji stjórnvöldum fyrir við efnahagsstjórnina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert