Íslendingar þurfa öfluga talsmenn erlendis

Almannatenglar segja nýlega umræðu í breska þinginu, þar sem Gordon …
Almannatenglar segja nýlega umræðu í breska þinginu, þar sem Gordon Brown forsætisráðherra fór rangt með staðreyndir og fjallaði um Ísland með neikvæðum hætti, varpa ljósi á þá einkennilegu staðreynd að ríkistjórn Íslands hafi ekki á sínum snærum í Bretlandi málsvara.

Stjórn Almannatengslafélag Íslands hvetur stjórnvöld til að tryggja að Ísland og Íslendingar eigi sér öfluga talsmenn erlendis, sem hafi umboð og tæki til að bregðast við neikvæðri fjölmiðlaumfjöllun um leið og hún kemur upp. Það þoli ekki lengri  bið. Almannatenglar segja nýleg ummæli Gordons Browns í breska þinginu um Ísland sýna fram á þörfina fyrir talsmann erlendis.

Í ályktun sem Almannatengslafélag Íslands samþykkti í gær segir að nýlega umræða í breska þinginu, þar sem Gordon Brown forsætisráðherra fór rangt með staðreyndir og fjallaði um Ísland með neikvæðum hætti, varpi ljósi á þá einkennilegu staðreynd að ríkistjórn Íslands hafi ekki á sínum snærum í Bretlandi málsvara, sem að minnsta kosti geti leiðrétt augljósar staðreyndavillur.

„Slíkur málsvari gæti beitt sér og nýtt uppákomur sem þessar til þess að bæta orðspor þjóðarinnar. Þetta hefur sjaldan verið mikilvægara en einmitt nú, þegar að Ísland er reglulegt fréttaefni víða um lönd vegna bankahrunsins,“ segir í ályktun félagsins.

Í tillögum starfshóps Almannatengslafélags Íslands frá því í október síðastliðnum kom fram að brýnt væri að semja við alþjóðleg almannatengslafyrirtæki um að koma sjónarmiðum Íslendinga á framfæri erlendis. Í ályktuninni segir að enginn vegur sé fyrir ráðuneyti eða aðgerðahópa hér heima að hafa þá staðbundnu yfirsýn sem þarf til að taka réttar og skjótar ákvarðanir um slíkar aðgerðir.

Þá segir að mörg dýrmæt tækifæri í upplýsingamiðlun til erlendra fjölmiðla hafi farið forgörðum. Svo virðist sem að enn sé hik í þeim efnum af hálfu stjórnvalda og ætlunin sé að fjarstýra upplýsingamiðluninni héðan en það sé borin von.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert