Kanna lögmæti frestunar launahækkana

Aðalsteinn Á. Baldursson, formaður Framsýnar - stéttarfélags.
Aðalsteinn Á. Baldursson, formaður Framsýnar - stéttarfélags.

Framsýn – stéttarfélag Þingeyinga hefur falið lögfræðingum félagsins að kanna lögmæti þess að launahækkunum var frestað. Félagið dregur í efa að frestun standist.

Í grein sem Aðalsteinn Árni Baldursson, formaður Framsýnar – stéttarfélags skrifar í Morgunblaðið í dag rekur hann frestun umsaminna launahækkana upp á 13.500 krónur sem koma áttu til framkvæmda 1. mars sl. og andstöðu sex stéttarfélaga á landsbyggðinni við frestunina.

Samskipti landsbyggðarfélaganna sex og forystu ASÍ hafa verið stirð vegna þessa m.a. og þegar sem mest gekk á lét forseti ASÍ þau orð falla að félögunum sex væri frjálst að yfirgefa samflotið. Formaður Framsýnar segir félögin hins vegar hafa verið bundin og því ekki komist frá samningnum, enda hafi það aldrei verið ætlunin.

„Það voru mikil vonbrigði að samningsaðilar skildu ekki ganga frá því hvenær hækkunin sem frestað var kæmi til framkvæmda. Í dag er óljóst hvort eða hvenær hún kemur til framkvæmda. Verkafólk býr því áfram við algjöra óvissu. Það er líka afar sérstakt að grunnatvinnuleysisbætur, sem ekki eru merkilegar, skuli vera 149.523 krónur á mánuði, eða hærri en margir kauptaxtar verkafólks sem starfar eftir kjarasamningum Starfsgreinasambands Íslands en þar eru byrjunarlaun 137.752 krónur. Þetta gengur að sjálfsögðu ekki upp og er ekki hvetjandi fyrir þá hópa sem starfa eftir þessum kjörum, það er á launum sem eru fyrir neðan atvinnuleysisbætur. Hefði atvinnurekendum verið gert að standa við hækkanirnar 1. mars væru menn ekki í þessari stöðu,“ skrifar Aðalsteinn.

Hann segir alveg ljóst að Samtök atvinnulífsins og samninganefnd Alþýðusambands Íslands verði að tryggja að umsamdar launahækkanir sem koma áttu til framkvæmda 1. mars komi í vasa verkafólks strax í sumar. Við annað verði ekki unað.

Grein formanns Framsýnar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka