Ökumenn með fíkniefni í þvagi komast hjá sviptingu

Lögreglumenn frá Selfossi láta ökumann á Hellisheiði athuga með ástand …
Lögreglumenn frá Selfossi láta ökumann á Hellisheiði athuga með ástand ökumanns. Það var í lagi og honum heimilt að aka áfram. mbl.is/Júlíus

Hæstiréttur staðfesti fyrir helgina að heimilt væri að beita undantekningarákvæði í umferðarlögum og sleppa sviptingu ökuréttar ef fíkniefni mælast aðeins í þvagi ökumanns. Fjölmargir hafa hins vegar verið sviptir ökurétti á þessum forsendum. Nefnd um endurskoðun umferðarlaga mun taka á málinu.

Málið snýr helst að þeim ökumönnum sem neytt hafa kannabisefna einhverjum dögum eða vikum áður en þeir eru stöðvaðir af lögreglu. Þeir eru þá ekki undir áhrifum efnisins en engu að síður mælist afleiða THC, sem er virka efnið í kannabis, í þvagi viðkomandi. Samkvæmt 45. gr. a núgildandi umferðarlaga telst ökumaður undir áhrifum fíkniefna – og þar með óhæfur til að stjórna ökutæki örugglega – mælist ávana- og fíkniefni í blóði eða þvagi.

Ekki á valdi dómstóla að hreyfa við ákvörðun löggjafans

Í dómi Hæstaréttar frá 19. júní á síðasta ári segir m.a. : „Með þessu hefur löggjafinn ákveðið að litið skuli svo á að þannig sé komið fyrir ökumanni, [...] ef tetrahýdrókannabínólsýra mælist í þvagi hans, en niðurstaða um það er í engu háð mati eftir öðrum forsendum á því hvort hann sé í reynd undir áhrifum ávana- og fíkniefna. [...] Ekki er á valdi dómstóla að hreyfa við þessari ákvörðun löggjafans, sem reist er á málefnalegum grunni.“
Í ofangreindum dómi var ökumaður sviptur ökurétti þrátt fyrir að aðeins mældist tetrahýdrókannabínólsýra í þvagi hans, en sýran er afleiða THC.

Sviptingu sleppt en sektin stendur

Í kjölfar dómsins kröfðust lögmenn skjólstæðinga sem svona var ástatt fyrir að sleppa bæri sviptingu ökuréttar vegna undantekningarákvæðis sem finna má í lögunum. Í því segir að ef sérstakar málsbætur eru og ökumaður hefur ekki áður gerst sekur um sams konar brot eða annað verulegt brot gegn skyldum sínum sem ökumaður má sleppa sviptingu ökuréttar, meðal annars vegna brots gegn fyrrgreindum ákvæðum.
Þrír dómar féllu í Hæstarétti fyrir helgi þar sem tekist var á um þetta mál.

Í þeim öllum segir: „Eins og að framan er rakið er svigrúm gefið til að ákvarða viðurlög með hliðsjón af atvikum og alvarleika brots þannig að sanngjarnt sé og eðlilegt. Í ljósi þessa verður að túlka orðalagið „sérstakar málsbætur“ í greindu undanþáguákvæði þannig að undir þær geti fallið þau atvik þegar ökumanni er refsað á grundvelli 45. gr. a en efni sem finnst eingöngu í þvagi hefur sannanlega ekki haft áhrif á hæfni til aksturs, langt er síðan fíkniefna var neytt og ekkert var athugavert við akstur ákærða.“ Með ákvæðinu er ökuleyfissviptingu sleppt en sektin hins vegar heldur sér.

Ákvæðinu breytt með nýju frumvarpi

Ríkissaksóknari sendi lögreglustjórum tvö bréf vegna dóma af þessu tagi, það síðara í desember árið 2007. Þar lagði hann áherslu á, að það sé hans mat, að við rannsókn málanna verði að jafnaði einungis aflað vottorðs um magn ávana- og fíkniefna í blóði en ekki þvagi. Þrátt fyrir það hafa mörg embætti gefið út ákærur byggðar eingöngu á niðurstöðum þvagsýna.
Ríkissaksóknari hefur eftir það farið þess á leit við nefnd um endurskoðun umferðarlaga að hún taki þetta atriði til skoðunar. Róbert R. Spanó, formaður nefndarinnar, segist ekki vilja útlista her tillagan verði „en nefndin er mjög meðvituð um vandamálið með þetta ákvæði og mun í sínum tillögum til ráðherra um nýtt frumvarp til umferðarlaga gera tillögu um breytingu á þessu.“

Róbert segir að tillögum nefndarinnar verði skilað til ráðherra innan nokkurra vikna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert