Krafa um hærri greiðslur vegna EES

Höfuðstöðvar Evrópusambandsins í Brussel.
Höfuðstöðvar Evrópusambandsins í Brussel. AP

Evrópusambandið hefur gert kröfur um að EFTA-ríkin þrú, sem eiga aðild að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið greiði hærri upphæð í þróunarsjóði Evrópusambandsins en áður. Norðmenn, sem greiða stærstan hluta þessarar upphæðar, hafa hins vegar krafist þess að hún verði lækkuð.

Síðasti samningur rann út 30. apríl og ekki hefur náðst samkomulag um nýjan. Norska fréttastofan NTB segir hins vegar að á stuttum samningafundi í Brussel í gær hafi samningsaðilar nálgast hver annan.

„Við höfum sagt, að við getum rætt um hærri greiðslur ef við fáum á móti gerðar nauðsynlegar breytingar á samkomulaginu," hefur NTB eftir Oda H. Sletnes, sendiherra Noregs í Brussel.

Norðmenn hófu samningaviðræðurnar í fyrra með þeirri kröfu, að greiðslur EFTA-ríkjanna í þróunarsjóði ESB yrðu lækkaðar. Evrópusambandið krafðist hins vegar 70% hækkunar á greiðslunum. Ríkin þrjú, Noregur, Ísland og Liechtenstein, hafa greitt jafnvirði 160 milljarða króna í þróunarsjóði Evrópusambandsins síðustu þrjú ár gegn því að fá aðgang að innri markaði sambandsins. Norðmenn greiða bróðurpart þessarar upphæðar.

NTB hefur eftir Alan Seatter, formanni samninganefndar ESB, að þar á bæ séu menn tilbúnir til að slá af kröfunum. Hann segir að lausn sé í sjónmáli. 

Fréttastofan segir, að Norðmenn vilji hafa meira að segja um hvert það fé, sem þeir greiða, rennur. Þannig vilji Norðmenn að Spánverjar og Grikkir fái ekki þessar greiðslur heldur verði þær eyrnamerktar umhverfisverkefnum í nálægum ESB-löndum, svo sem Póllandi og Eystralandslöndunum. Þá vilja norsk stjórnvöld að tryggt verði að norsk fyrirtæki fái að taka þátt í þessum verkefnum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka