Ómar Örn Jónsson, meindýraeyðir á Húsavík, segir í yfirlýsingu um umdeilt kattarmál að hann hafi þegar á fimmtudagskvöld beðið eigandann afsökunar. Hann segist hafa unnið ákveðið verkefni fyrir Norðurþing en hafi einnig heyrt að margir óþolinmóðir borgarar hafi tekið málin í sínar hendur og aflífað lausa ketti og hunda.
,,Ég er ráðinn í ákveðið verkefni hjá Norðurþing sem fólst i þessu tilfelli að ákveðinni reglugerð um hunda- og kattahald væri framfylgt," segir m.a. í yfirlýsingunni. ,,Þetta er reglugerð sem Norðurþing setti nú á dögunum og tók fullt gildi þann 1. Janúar 2009. Þessi reglugerð er sett í ljósi þess að mikil óþægindi hafa skapast af lausagöngu hunda og katta í sveitarfélaginu.
Síðan það spurðist út að kominn væri aðili sem tæki að sér að sinna þessari nýju reglugerð hefur ekki sá dagur liðið sem hringt sé í mig og kvartað út af lausum hundum sem flaðra upp um fólk eða eru að gera stykki sín í görðum þess og köttum sem eru búnir að fara inní ókunnug hús, uppí barnavagna eða gerandi stykkin sín í sandkassa barna. Ég hef gert mitt besta til að handsama þessi dýr og koma þeim til sinna réttu eiganda eins fljótt og auðið er, jafnvel keyrt þeim upp að dyrum þrátt fyrir að mér beri engin skylda til samkvæmt nýrri reglugerð, að gera.
Í raun svo það sé bara á hreinu þá ber mér að halda dýrunum í vörslu þangað til eigandi hefur vitjað þeirra og borgað umsamið gjald þeim til lausnar. Með þetta í huga skal athuga að ég hef heyrt þess getið að menn sem fengið hafa nóg af lausagöngu katta hafa tekið málin í sínar eigin hendur og oftar en ekki hef ég fengið þann þunga dóm götunnar að þarna hafi meindýraeyðirinn verið að verki."