Alþjóðlega matsfyrirtækið Standard & Poors's tilkynnti í gærkvöldi, að það hefði sett Landsvirkjun á athugunarlista og mæti horfur um lánshæfiseinkunn félagsins neikvæðar. Segir S&P að þetta endurspegli versnandi fjármögnunarmöguleika Landsvirkjunar, veikingu á lausafjárstöðu og óvissu um vilja íslenska ríkisins til að veita fjárhagslegan stuðning gerist þess þörf.
Einkunn Landsvirkjunar er nú BBB- fyrir langtímaskuldbindingar og A-3 fyrir skammtímaskuldbindingar.
S&P segir, að óvissa ríki um lánsfjármögnun Landsvirkjunar til skamms tíma, aðgangur að fjármagnsmarkaði sé takmarkaður, krafa gæti verið gerð um að fyrirtækið leggi fram meiri veð og lausafé Landsvirkjunar hafi minnkað vegna afborgunar á láni í mars.
Þá segir S&P að einkunn Landsvirkjunar byggist m.a. á því að hún sé að öllu leyti í eigu íslenska ríkisins sem ábyrgist skuldir félagsins.