„Reynslan í nágrannalöndunum er sú að svona framleiðsla bætist bara ofan á annað. Þetta er virðisaukning á búinu sjálfu. Bændurnir halda áfram að senda á afurðastöðvar. Að mínu mati er umhverfið í landbúnaðinum breytt. Bændur vilja hafa meira með sölu og markaðssetningu sinna vara að gera,“ segir Hlédís Sveinsdóttir, formaður Beint frá býli, samtaka heimavinnsluaðila.
Innan vébanda samtakanna eru 66 framleiðendur og þeim fer fjölgandi. Framleiðslan er af ýmsu tagi; ostar og ís, kjöt og fiskur, brauð, te og handverk, svo dæmi séu nefnd. Í sumar bætist bærinn Ferjubakki II í Borgarfirði í hópinn. Bændur þar ætla að bjóða ferðamönnum upp á tilbúnar nestiskörfur með íslenskum mat; flatkökur með hangikjöti, rúgbrauð með kæfu og skonsur með reyktum silungi.