Gera má ráð fyrir að um 100 manns gangi á Hvannadalshnúk í dag en glaðasólskin er nú í undirhlíðunum og ,,stuttbuxnaveður" þar, eins og Leifur Örn Svavarsson hjá Íslenskum fjallaleiðsögumönnum orðaði það. Hvasst er á sjálfum tindinum og skefur en spáð að lægi er líður á daginn.
,,Venjulega leggjum við af stað um fimmleytið en fórum ekki frá Sandfelli fyrr en klukkan níu í þetta sinn, fórum eins seint og mögulegt er til að tryggja okkur að veðrið yrði gott," sagði Leifur í samtali við mbl.is í morgun. ,,Við erum með nokkra hópa, í allt um 50 manns, þar af sjö leiðsögumenn. En það voru bílar á stæðinu við Sandfell þegar við lögðum af stað og við vitum að fleiri voru á leiðinni, ég giska á að í allt séu um 100 manns á leiðinni á tindinn."
Leifur segir að flestir þátttakenda séu Íslendingar. Hann reiknar með að verða á fjallstoppinn um fimmleytið og vonar að hópurinn verði kominn aftur niður um tíuleytið í kvöld. Hann hefur gengið á hverju vori frá 1993 og segist ekki hafa tölu á því hve oft hann hafi gengið á Hvannadalshnúk.