Stálu verki eftir Kjarval

Kjarvalsstaðir.
Kjarvalsstaðir. Morgunblaðið/ Þorkell

Ungt par er í yfirheyrslum hjá lögreglu vegna stuldar á málverki á Kjarvalsstöðum í gærdag. Um er að ræða verkið Á Hulduströnd en það er þekkt verk og óhugsandi að koma því í verð, að sögn safnstjórans Hafþórs Yngvasonar. Hann segir gott að vita til að öryggiskerfi safnsins er pottþétt.

Unga parið kom á safnið um klukkan tvö í gær. Öryggisvörður fylltist strax grunsemdum og fylgdi því eftir. Þau gengu inn í Kjarvalssalinn, náðu að taka eitt verkana niður og komast sína leið. Um leið var haft samband við lögreglu.

Lögreglumenn báru strax kennsl á fólkið sem hefur margsinnis komið við sögu lögreglunnar áður. Lögreglumenn fóru í kjölfarið á heimili fólksins, handtóku það og sóttu verkið. Við fyrstu sýn virðist það óskaddað.

Hafþór segir þetta hafa verið undarlega tilraun þar sem óhugsandi sé að koma svo þekktum verkum í verð. Að öðru leyti segir hann þetta góða áminningu fyrir starfsfólk safnsins að svona getur komið upp, en eins er gott að vita að öryggiskerfið er pottþétt.

Hann segir tilviljun hafa ráðið því að verkið var ekki fest betur. Í gær var verið að leggja lokahönd á nýja sýningu og hengja upp myndir. Ýmislegt smávægilegt átti eftir að klára, s.s. fáeinar merkingar og festingar. Verklagið verður skoðað eftir atvikið.

Hafþór segir þetta einnig góða lexíu fyrir aðra sem hyggjast reyna slíkt hið sama. Verðir eru á safninu og öflugt myndavélakerfi. Einnig segir hann að aðeins hafi tekið lögreglu fáeinar örfáar mínútur að mæta á svæðið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert