Stuðningsmenn Hitchem Mansrí, sem er í hungurverkfalli í gistiheimilinu Fit í Reykjanesbæ, hafa boðað til mótmæla við gistiheimilið klukkan 11. Segir í tilkynningu frá þeim að ástæða mótmælanna sé viðbragðsleysi stjórnvalda við hungurverkfalli Mansrí en hann hefur verið í hungurverkfalli í nítján daga.
Í frétt Morgunblaðsins nýverið kom fram að mál Alsírsmannsins Mansrí lá óhreyft hjá Útlendingastofnun í heilt ár áður en það var tekið til meðferðar. Stofnunin synjaði honum um hæli í síðasta mánuði og er málið nú til kærumeðferðar hjá dómsmálaráðuneytinu.
Ákvörðun Útlendingastofnunar var birt honum 19. maí sl. en hún hljóðaði upp á synjun á hæli og brottvísun með endurkomubanni í fimm ár. Að sögn Hauks Guðmundssonar, forstjóra Útlendingastofnunar, varð niðurstaðan þessi þar sem saga mannsins hefði verið metin ótrúverðug þar sem misræmis gætti í frásögn hans um aðstæður sínar.
Fyrir
úrskurðinn hafði Mansrí beðið hátt í tvö ár eftir úrlausn sinna mála.
„Þetta er hluti af fortíðinni þegar hér var langur hali af þessum
málum,“ segir Haukur. „Þessi maður sótti um í ágúst 2007 og það var
ekki byrjað að vinna í málinu fyrr en í ágúst 2008. Ég vil þó taka
skýrt fram að svona er þetta ekki lengur. Við byrjum að vinna í málum
nokkurn veginn um leið og þau koma.“