„Maður dregur eðlilega þá ályktun að stjórnarflokkarnir muni tryggja að þessi þingsályktunartillaga nái fram að ganga,“ segir Aðalsteinn Leifsson, lektor við Háskólann í Reykjavík, varðandi það að stjórnarflokkarnir muni leggja fram á Alþingi tillögu um aðildarumsókn að ESB.
„Það er erfitt að sjá að Samfylkingunni sé sætt í ríkisstjórn ef þetta grundvallaratriði í efnahags- og utanríkisstefnu flokksins fær ekki framgang. Ég sé það ekki fyrir mér að stjórnarflokkarnir láti örlög stjórnarinnar í hendurnar á stjórnarandstöðunni strax á fyrstu dögunum. Það finnst manni ákaflega ósennilegt og ótrúlegt að það verður niðurstaðan.“