Jake Siewert, sem lengi var yfirmaður upplýsingamála hjá Alcoa, hefur verið ráðinn aðstoðarmaður fjármálaráðherra Bandaríkjanna, Tims Geithners, í stjórn Baracks Obama forseta.
Siewert var aðaltalsmaður Alcoa þegar fyrirtækið gekk frá samningum um byggingu álvers á Íslandi og er vel hnútum kunnugur hér eftir fjölda sendiferða til landsins. Hann þekkir einnig vel til í Hvíta húsinu því áður en hann kom til Alcoa starfaði hann þar um átta ára skeið, síðast sem blaðafulltrúi Bills Clintons Bandaríkjaforseta. Þá var hann meðal ráðgjafa Johns Kerrys sem árið 2004 sóttist eftir útnefningu demókrata til forsetakjörs.