,,Ég er farfugl eins og margæsin sem ég sé þarna út um gluggann,“ sagði Kolbrún Halldórsdóttir á Bessastöðum í gær en þar lét hún af embætti umhverfisráðherra. Spurð um framtíðina sagði Kolbrún að hún væri alls óráðin.
Hún vildi ekkert gefa út á orðróm þess efnis að hún myndi sækjast eftir stöðu þjóðleikhússtjóra. Hún hefði sótt um þá stöðu fyrir fimm árum og það yrði bara að koma í ljós hvort hún gerði það aftur.
Kolbrún sagðist vera þakklát fyrir þann tíma sem hún varði í ráðherraembætti, hann hefði verið líkur meistaranámi í háskóla og nú væri kominn tími til að útskrifast.