Öryggi íbúa ógnað vegna kjaradeilu?

Fimmtán slökkviliðsmenn hafa sagt upp störfum hjá Brunavörnum Árnessýslu og munu þeir láta af störfum um næstu mánaðarmót. Þeir lýsa yfir vantrausti á yfirstjórn og slökkviliðsstjóra BÁ og óska eftir að þeir segi af sér hið fyrsta.

Slökkviliðsmennirnir spyrja í grein, sem þeir skrifuðu, hvort öryggi íbúa Árborgar sé ógnað vegna stjórnunarvandamála innan BÁ.

Þeir segja að það veki furðu að stjórn BÁ skuli lýsa yfir fullu trausti við slökkviliðsstjóra þegar flestir af reyndustu slökkviliðsmönnum á Selfossi hafi sagt upp vegna algjörs trúnaðarbrests við yfirstjórn. Nokkrir segi upp vegna þess að þeir treysti sér ekki til að starfa í liðinu þegar hinir séu hættir. Einn aðili sé að auki að hætta þar sem hann sé að flytja af landi brott.

„Þetta gera 15 manns sem eru að hætta, þess má geta að u.þ.b. 20 manns eru í útkallsliði BÁ á Selfossi,“ skrifa slökkviliðsmennirnir.

„Það verður að segjast að algjör trúnaðarbrestur sé kominn milli slökkviliðsmanna og yfirstjórnar BÁ. Það að við höfum þurft að stefna BÁ fyrir dómstóla til að fá okkar lögbundnu greiðslur er með öllu óþolandi,“ segir ennfremur í greininni.

„Þess vegna krefjumst við að slökkviliðsmönnum sé sýnd sú virðing að haldnir séu við okkur lögbundnir kjarasamningar án þess að við þurfum að sækja rétt okkar fyrir dómstólum.

Vegna þessa lýsum við yfir vantrausti á yfirstjórn og slökkviliðsstjóra BÁ og óskum eftir að þeir segi af sér hið fyrsta,“ segir að lokum í greininni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert