Þingmenn lýstu yfir andstöðu

Frá fundi flokksráðs VG í gær.
Frá fundi flokksráðs VG í gær. mbl.is/Árni Sæberg

Þrátt fyrir ólíka afstöðu í Evrópumálum hafa Samfylkingin og Vinstrihreyfingin – grænt framboð samið um að halda áfram stjórnarsamstarfi og hafa ákveðið að ákvörðun um aðild Íslands að ESB verði í höndum þjóðarinnar. „Eftir langar umræður varð um það mjög breið samstaða í flokksráðinu að við gengjum til þessa samstarfs,“ sagði Steingrímur.

ESB-málið er hins vegar mjög umdeilt innan raða VG og skv. heimildum Morgunblaðsins lýstu þingmennirnir Atli Gíslason, Jón Bjarnason, Þuríður Backman, Ásmundur Einar Daðason og Lilja Rafney Magnúsdóttir yfir andstöðu sinni á fundi flokksráðsins og sögðust áskilja sér rétt til að greiða atkvæði á móti ESB-tillögunni á Alþingi.

„Ég sætti mig við þetta af því að fulltrúalýðræðið fær að ráða þessu,“ segir Atli Gíslason, þingmaður VG, sem hefur talað gegn aðild að ESB. Hann segir að hver þingmaður flokksins muni fylgja sinni sannfæringu í málinu.

„Okkur greinir á um þessa málsmeðferð, en stefna flokksins er algjörlega klár í ESB-málum. Við leggjumst gegn ESB-aðild. Eigum við ekki að segja að þetta hafi verið orrusta um málsmeðferð en ekki stríðið um ESB. Þetta er millileikur og það verður að miðla málum í ríkisstjórn,“ segir Atli.

„Mér fannst menn vera að horfa á breiddina í málinu. Það eru gríðarleg verkefni sem bíða þessarar ríkisstjórnar,“ segir Sjöfn Ingólfsdóttir, formaður svæðisfélags VG í Reykjavík, sem var viðstödd flokksráðsfundinn í gær. „Það eru aðilar sem eru mjög andvígir því [aðild að ESB] og telja að einhverjar aðrar aðferðir hefðu verið betri, en engu að síður afgreiðir fundurinn þetta með yfirgnæfandi niðurstöðu.“

Stjórnmálafræðingar segja að flókin staða sé komin upp. „Maður dregur eðlilega þá ályktun að stjórnarflokkarnir muni tryggja að þessi þingsályktunartillaga nái fram að ganga,“ segir Aðalsteinn Leifsson, lektor við HR.

Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor í stjórnmálafræði við HÍ, segir Evrópumálið setja alla flokka í nokkurn vanda. Formaður Sjálfstæðisflokksins segir ekki mikið hafa komið á óvart í nýjum stjórnarsáttmála. „Það virðist taktík þessarar ríkisstjórnar að teysta á stjórnarandstöðuna,“ segir Bjarni Benediktsson. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, segir að það sé einsdæmi að ríkisstjórnarflokkarnir ætli að treysta því að stjórnarandstaðan leysi ESB-málið.

Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka