Tveimur umferðarljósum var í síðustu viku stolið af gatnamótum Sæbrautar og Holtavegar í Reykjavík. Ljósahausarnir sem stolið var eru nokkru minni en hefðbundin ljós og voru þeir festir á miðja staura vestanmegin gatnamóta fyrir umferð frá Holtavegi.
Að sögn framkvæmda- og eignasviðs Reykjavíkur er búið að kæra þjófnaðinn til lögreglu og eru þeir sem hafa ábendingar beðnir um að láta lögreglu vita. Ljósin voru brotin af og fjarlægð.
Vonast er til að ljósahausarnir skili sér og mögulegt verði að setja þá upp að nýju. Ný ljós kosta líklega um hálfa milljón króna, en þau þarf að sérpanta og getur því liðið einhver tími þar til hægt verður að laga ljósin.
Að sögn Reykjavíkurborgar er þetta í annað sinn sem ljósum á þessum stað er stolið, en öðrum hausnum var stolið í nóvember en hinn losaður. Ljósunum var þá skilað og urðu engir eftirmálar.