Verður að virða umsaminn trúnað

Guðlaugur G. Sverrisson.
Guðlaugur G. Sverrisson.

Guðlaugur G. Sverrisson, stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur, segir að virða verði umsaminn trúnað við viðskiptavini fyrirtækisins. Það sé samningsfrelsi á Íslandi og lögaðilum hafi fram til þessa verið heimilt að setja trúnaðarákvæði í samninga sín á milli, viðskiptasamninga sem aðra.

Svandís Svavarsdóttir, nýr umhverfisráðherra, sagði í fréttum Ríkisútvarpsins í gær, að  ný ríkisstjórn muni beita sér fyrir því að leynd, sem hvíl yfir orkuverði til stóriðju, verði aflétt. Hún sagðist einnig vilja skoða þá samninga sem þegar liggja fyrir, meðal annars samninginn um álverið í Helguvík.

Guðlaugur segir, að raunverð á raforku til viðskiptavina Orkuveitu Reykjavíkur á almennum markaði hafi lækkað um þriðjung frá því fyrirtækið hóf að selja stórnotendum raforku. Síðasta áratug hafi þessi lækkun fært viðskiptavinum Orkuveitu Reykjavíkur 16,5 milljarða króna búbót. Fullyrðingar um að almennur markaður sé að niðurgreiða raforku til stórnotenda eru því rangar.

Þá séu sölusamningar Orkuveitu Reykjavíkur til stórnotenda lagðir fyrir stjórn fyrirtækisins til afgreiðslu auk þess sem eigendur fyrirtækisins – Reykjavíkurborg, Akraneskaupstaður og Borgarbygg, þurfi að staðfesta þá. Einnig birti Orkuveita Reykjavíkur ársreikninga sína opinberlega og þeir gefi glögga mynd af skiptingu tekna af smásölu og heildsölu raforku.

Guðlaugur segir, að raforkumarkaðurinn hér á landi sé samkeppnismarkaður og hafi verið það um nokkurra ára skeið. Orkuveita Reykjavíkur hafi styrkt stöðu sína á almennum raforkumarkaði, m.a. með tugum sölusamninga við smærri og stærri fyrirtæki og það ríki trúnaður um efni þeirra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka