Brunavarnir Árnessýslu svara

Brunavarnir Árnessýslu hafa sent frá sér yfirlýsingu vegna yfirlýsingar starfsmanna, sem birtist í gær en harðar deilur hafa verið innan stofnunarinnar að undanförnu.
 

Yfirlýsingin er eftirfarandi:

Innan Brunavarna Árnessýslu hafa staðið deilur síðustu vikurnar, deilur við nokkra starfsmenn sem ekki geta sætt sig við yfirstjórn BÁ. Ekki verður hjá komist að svara yfirlýsingu sem þeir sendu frá sér í dag.

Við höfum unnið vikum saman að lausn málsins, meðal annars með fulltrúum Landssambands slökkviliðsmanna. Við höfum skrifað undir samkomulag við LSS vegna mála sem slökkviliðsmenn lögðu fram og töldum að með því væri komin lausn í málinu. Því miður virðist það ekki vera. Slökkviliðsstjóri hefur ekki brotið af sér í starfi eða farið út fyrir samþykktir stjórnar. Stjórn og fulltrúaráð eru kjörin af sveitarfélögum sem eru eigendur BÁ og hafa þau ekki lýst neinu vantrausti á okkar störf. Það er aldrei einum að kenna er tveir deila, mál sem þessi eru innanhúsmál sem auðvelt er að leysa ef báðir aðilar vinna að þeim.

BÁ hefur auglýst eftir starfsmönnum í stað þeirra sem ákveðið hafa að hverfa til annarra starfa, borist hafa á annan tug umsókna og munum við ráða slökkviliðsmenn, þjálfa þá og mennta í samstarfi við Brunamálastofnun sem hefur boðið okkur aðstoð sína. Meðan á þjálfun stendur verður sett upp öryggisáætlun með núverandi slökkviliði sem og slökkviliðum í nærsveitum og á höfuðborgarsvæðinu. Undirbúningur að þessari áætlun er þegar hafinn og mun öryggi íbúa verða tryggt.

Á fundi sem slökkviliðsmenn héldu óskuðu þeir eftir að fá að hitta stjórn. Stjórn bauð hverjum og einum starfsmanni að koma til fundar við sig til að ræða málin, formaður stjórnar hafði samband við framkvæmdastjóra Landssambands slökkviliðsmanna og óskaði eftir að fulltrúi LSS yrði með starfsmönnum á þessum fundum, sem LSS samþykkti. Enginn af starfsmönnum sem sagt hafa upp þáði að koma til fundar við stjórn. Stjórn vildi með þessu verða við óskum slökkviliðsmanna en ekki að kalla menn á teppið eins og orðað er í yfirlýsingunni.

Það er mikil einföldun að setja fram þá kröfu sem starfsmaður að maður ætli að hætta störfum ef yfirmaður manns verður ekki rekinn. Það einfaldlega virkar ekki þannig í fyrirtækjum og stofnunum. Maður velur sér starfsvettvang af fúsum og frjálsum vilja, ef manni líkar ekki sú yfirstjórn sem þar er getur maður valið að hætta. En það er með eindæmum að menn skuli telja það nauðsynlegt að ráðast með þessum hætti að vinnustaðnum í stað þess að hverfa til annarra starfa.

Slökkviliðsmenn völdu Landssamband sitt til að vinna að lausnum málsins, en hluti þeirra sem sagt hafa upp eru ekki tilbúnir að vinna með okkur að þeim, það er þeirra val og við getum því miður ekki gert neitt í því. Við hefðum óskað þess að geta nú hafið vinnu með öllum starfsmönnum að þessum lausnum og uppbyggingu liðsheildarinnar.

BÁ hefur ávallt haft yfir miklum mannauð að ráða, er vel tækjum búið og styrkur liðsins hefur verið mikill. Stjórnendur BÁ munum vinna að því að svo verði áfram.

 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert