Með brotthvarfi Svandísar Svavarsdóttur úr borgarstjórn Reykjavíkur fækkar enn um einn af þeim borgarfulltrúum sem náðu kjöri í borgarstjórnarkosningunum 2006. Þrír borgarfulltrúar hafa beðist lausnar á kjörtímabilinu, einn hefur boðað afsögn og tveir hafa verið í leyfi í vetur. Alls eru þetta 6 borgarfulltrúar af 15.
Báðir borgarfulltrúar Vinstri grænna hafa horfið eða munu hverfa úr borgarstjórn. Árni Þór Sigurðsson var kjörinn á Alþingi 2007 og hætti í kjölfarið. Nú hefur Svandís Svavarsdóttir verið kjörin á þing og tekið við embætti umhverfisráðherra. Hún hefur tilkynnt að hún muni biðjast lausnar og hætta í borgarstjórn. Björn Ingi Hrafnsson, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins, baðst lausnar á kjörtímabilinu og varamaður kom í hans stað. Steinunn Valdís Óskarsdóttir, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, var kjörin á þing 2007 og hætti í borgarstjórn.
Þá er Stefán Jón Hafstein, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, í leyfi um ótiltekinn tíma. Loks hefur Gísli Marteinn Baldursson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, verið í námsleyfi í vetur.