Enn er kvartað yfir árrisulum hana í Vestmannaeyjum, sem trúr sínu eðli vaknar snemma og fer með morgunsöng fyrir nágrannana. Að sögn lögreglu liggur nú fyrir kæra frá einum nágranna hanans vegna brota á lögreglusamþykkt Vestmannaeyja um búfjárhald.
Lögregla hefur eftir kærandanum að hann sé búinn að fá nóg af ónæðinu og krefjist þess að þaggað verði niður í hananum þannig að svefnfriður fáist.
Lögreglan segir, að ekki hafi verið gripið til aðgerða vegna hanans en verið sé að vinna í málinu. Væntanlega verði eiganda hanans boðið að flytja hann á afviknari stað á eyjunni.