Tveir félagsmenn í Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh), Jón Aðalbjörn Jónsson og Guðbjörg Ág. Sigurðardóttir, hafa lagt fram tillögu fyrir aðalfund félagsins sem haldinn verður í dag, að fundurinn samþykki að fela stjórn félagsins að ganga frá úrsögn félagsins úr Bandalagi háskólamanna (BHM).
„Stjórn skal tilkynna BHM úrsögnina innan tilskilins frests þannig að hún öðlist gildi frá og með áramótum 2009 og 2010. Stjórn skal þegar hefja undirbúning viðbragða við því ástandi sem skapast vegna úrsagnar og núverandi aðildar félagsmanna að sjóðum BHM,“ að því er segir í tillögu til aðalfundar félagsins.
Segir í rökum með tillögunni að Fíh hafi um árabil verið aðili að BHM og á þeim tíma tekið virkan þátt í starfsemi bandalagsins. „Nú er svo komið að hagur félagsmanna af aðild að BHM verður að teljast lítill í samanburði við þann kostnað sem aðildinni fylgir. Jafnframt er stærð Fíh slík að litið er á hana sem ógn í starfi BHM eins og glögglega kom í ljós á aðalfundi BHM í maí 2008.
Stærð Fíh gerir að verkum að félagið hefur meiri burði til að ráða við mörg verkefni sem falla undir grundvallarmarkmið BHM. Stefnuleysi eða samráðsleysi BHM og vöntun á viðbrögðum þess við aðstæðum á vinnumarkaði endurspeglast á vef bandalagsins þann 2. Apríl 2009 undir flipunum „fréttatilkynningar“ og „helstu fréttir úr starfseminni“ sem báðir eru ætlaðir fjölmiðlum. Báðar síður eru tómar.
Á sama tíma og önnur bandalög sem og stéttarfélög leitast við að koma skoðunum sínum á framfæri við fjölmiðla er engu slíku fyrir að fara hjá BHM sem verður að teljast fráleitt þegar aðstæður sem uppi eru í þjóðfélaginu snerta óneitanlega alla félaga aðildarfélaga BHM," að því er segir í rökum með tillögunni sem borin verður upp á fundinum í dag.