Ríkisstjórnin hefur markað sér þá stefnu að engin „ríkislaun“ skuli vera hærri en sem nemur launum forsætisráðherra. Þetta kallar á breytingar á lögum um kjararáð því dæmi eru um að embættismenn ríkisins séu á hærri grunnlaunum en sem nemur launum forsætisráðherra sem eru 935 þúsund á mánuði.
Ríkislaunastefna kemur fram í kaflanum ríkisfjármál í samstarfsyfirlýsingunni. Þar segir: „Gætt verði ýtrasta aðhalds í rekstri ríkisins, þóknanir fyrir nefndir verði lækkaðar eða lagðar af, hömlur verði settar á aðkeypta ráðgjafaþjónustu og sú stefna mörkuð að engin ríkislaun verði hærri en laun forsætisráðherra. [...] Sjálfstæðum hlutafélögum í eigu ríkisins verði settar skýrar reglur um launastefnu og útgjaldastefnu í þessum anda.“
Kjörnir fulltrúar og langflestir embættismenn heyra undir kjararáð sem ákveður kjör þeirra út frá tilteknum forsendum. Guðrún Zoëga, formaður kjararáðs, segir að eini ríkisforstjórinn sem heyrir undir kjararáð og sé með hærri laun en forsætisráðherra, sé forstjóri Landspítalans. Hún er með um 1,4 milljónir í mánaðarlaun. Forseti Hæstaréttar er með um 970 þúsund krónur í heildarlaun á mánuði. Hugsanlega séu örfáir embættismenn með álíka há og jafnvel hærri heildarlaun en forsætisráðherra, að sögn Guðrúnar.
Guðrún segir að til að kjararáð geti lækkað laun þeirra embættismanna sem fá hærri laun en forsætisráðherra, verði Alþingi væntanlega að breyta lögum um kjararáð.
Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.