Ríkisstjórnarfundur á Akureyri

Ríkisstjórnin á Bessastöðum
Ríkisstjórnin á Bessastöðum mbl.is/Árni Sæberg

Ný ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs kemur saman til fyrsta fundar í dag. Fundurinn verður haldinn á Akureyri og að sögn þeirra sem gerst þekkja til og lengst muna í þessum efnum, er það í fyrsta sinn sem almennur ríkisstjórnarfundur er haldinn utan Reykjavíkur. Fundir hafa áður verið haldnir á hátíðarstundum á Þingvöllum, en ekki annars staðar á landinu, að því er segir í tilkynningu frá stjórnarráðinu.

„Með staðarvalinu vill ríkisstjórnin undirstrika að hún er ekki bara stjórn þeirra sem á höfuðborgarsvæðinu búa, heldur landsins alls. Ekki er útilokað að fleiri fundir en þessi verði haldnir utan Reykjavíkur þegar fram líða tímar."

Fundur ríkisstjórnarinnar verður haldinn kl.12:00 á bæjarskrifstofunum á Akureyri. Að honum loknum sitja forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar fyrir svörum blaðamanna í Háskólanum á Akureyri kl. 14:30.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka