Sex eignir á framhaldsuppboð

mbl.is/ÞÖK

Sex húseignir fóru í framhaldsuppboðsmeðferð hjá Sýslumanninum í Reykjavík í gær. Takist eigendum þeirra ekki að semja við kröfuhafa verða þær boðnar upp og slegnar hæstbjóðenda á hverju heimilisfangi fyrir sig í júní.

Fulltrúi sýslumanns hvetur fólk til að funda með kröfuhöfum. Það versta sem fáist úr slíkum viðræðum sé óbreytt staða. Hins vegar geti samist um skuldirnar.

Rétt tæplega þrjátíu heimili höfðu verið auglýst á uppboði hjá Sýslumanninum í Reykjavík í gær, en fyrir utan þessi sex var uppboðsbeiðnunum frestað; flestum til 23. nóvember. Það er lengri frestur en áður tíðkaðist en vegna bættrar lagastöðu skuldara geta þeir sem missa húsin sín á uppboð nú farið fram á frest án þess að kröfuhafi geti andmælt því. Heyra mátti á fulltrúum kröfuhafa að svo virtist sem margir hefðu að undanförnu áttað sig á þessu nýja ákvæði og sæktu um frestinn.

Margir íbúðareigendanna voru á staðnum og við ábendingu fulltrúa sýslumanns um ferlið sögðust margir ætla að reyna allt sitt til að halda eignum sínum. Fulltrúar kröfuhafa nefndu sín á milli að þeim fyndist hljóðið jákvæðara í þeim sem stæðu frammi fyrir því að missa heimili sín; fólkið tryði að því tækist að forðast uppboð og greiða skuldir sínar.

Athygli vakti að Landsbanki, Kaupþing og Íslandsbanki voru aðeins í fimm skipti meðal gerðarbeiðenda í þetta sinn; Landsbankinn þrisvar og hinir í eitt skipti hvor. Algengast var að Tollstjóraembættið, Reykjavíkurborg og Íbúðalánasjóður væru meðal gerðarbeiðenda. Í átta, sjö og sex skipti.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka