Skiptar skoðanir eru raunar um hvers eðlis tannheilsuvandi íslenskra barna er og hversu alvarlegur, en óumdeilt er að úrbóta er þörf til að snúa við óæskilegri þróun.
„Það er ekki stórkostlegt tannheilsuvandamál í gangi almennt, en það er mikið vandamál hjá einstökum börnum, það er óumdeilt,“ segir Reynir Jónsson, tryggingayfirlæknir hjá Sjúkratryggingum Íslands. Að sögn Reynis styðja þau gögn sem stofnunin fær inn á borð til sín ekki fullyrðingar um að tannheilsu íslenskra barna hraki í heild, fjöldi barna sem leiti til tannlæknis fari þvert á móti vaxandi og flest séu þau við góða heilsu.
Til samanburðar við Norðurlöndin erum við þannig ögn lakari, þar sækja um 90% barna reglulega skoðun tannlækna en hér á landi er hlutfallið um 80-85% að sögn Reynis.
Á hinn bóginn þurfi að hafa í huga að Sjúkratryggingastofnun fær aðeins upplýsingar um þau börn sem koma í skoðun til tannlækna. „Hvernig eru hin börnin sem ekki koma? Það sést ekki hjá okkur. En tannvandinn er að safnast í færri og færri munna, minna hlutfall af heildinni. Það er hinsvegar hópur barna þarna úti með mikinn tannvanda, en vandamálið er að finna hann.“
Samkvæmt lögum endurgreiðir Sjúkratryggingastofnun 75% tannlæknakostnaðar fyrir börn 17 ára og yngri. Endurgreiðslan er miðuð við gjaldskrá heilbrigðisráðuneytisins sem ekki hefur breyst síðan í október 2004. Verðlagning tannlækna er hinsvegar frjáls og hefur þróast með hækkandi verðlagi.
Mismunurinn fellur á foreldra og er afleiðingin því sú að tannlæknakostnaður er almennt mun hærri en gjaldskrá ráðuneytisins miðar við, eða allt frá 40% til 160% hærri eftir stofum að sögn Reynis.
Í reynd fá foreldrar því mun lægra hlutfall en 75% endurgreitt. Þetta virðist gera það að verkum að tannlæknakostnaður er mörgum fjölskyldum ofviða.
Fram að því höfðu skólatannlæknar haldið utan um eftirlit með börnunum sem voru reglulega kölluð inn til skoðunar. Til að byrja með var reynt að samræma eftirlit einka- og skólatannlækna en undanfarin ár hafa foreldrar einir haft frumkvæði að því að fylgja reglubundinni skoðun eftir. Skipulegt eftirlit með tannvernd barna og hóflegur kostnaður virðast því vera lykilatriði til að snúa þróuninni til betri vegar.
„Því miður hefur þróunin verið þessi og sýnir hvað forvarnirnar borga sig. Það er alveg kristaltært að þær þjóðir sem hafa rekið skólatannlækningar standa mun betur að vígi en þær sem ekki gera það.“
Stefán Finnbogason, fyrrverandi yfirskólatannlæknir, segir að með því fyrirkomulagi sem áður ríkti hafi 90% barna fengið árlega skoðun, en eftir breytinguna 1991 hafi heimtur dvínað. Hann segist ekki nokkurn vafa um að afnám skólatannlækninga hafi haft slæm áhrif á tannheilsu. Góður árangur hafi áður náðst en tannskemmdir séu nú aftur orðnar vandamál.