Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, fjallaði á fyrsta fundi nýrrar ríkisstjórnar í dag um sóknaráætlun fyrir Ísland en ríkisstjórnin hyggst efna til viðtæks samráðs undir forystu forsætisráðuneytisins um sóknaráætlanir fyrir alla landshluta til að efla atvinnulíf og lífsgæði til framtíðar.
Í sóknaráætluninni á að leggja heildstætt mat á styrkleika Íslands og tækifæri og hvernig sækja megi fram, ekki síst á sviði atvinnumála. Með henni á að nást yfirsýn yfir áætlanir sem heyra undir ólík ráðuneyti auk þess sem greint verður hvernig þær geti spilað saman til að Ísland geti orðið eitt af 10 samkeppnishæfustu ríkjum heims árið 2020. Jafnframt verði gerðar sérstakar sóknaráætlanir fyrir hvern landshluta fyrir sig og þær verði unnar í samráði við íbúa, sveitarfélög, hagsmunaaðila, grasrótarhreyfingar og sérfræðinga.
Fundurinn var haldinn á Akureyri. Þar lagði Jóhanna fram hugmyndir um hvernig háttað verður málsmeðferð stórra mála á Alþingi, sem varða lýðræðisumbætur, t.d. frumvarp um persónukjör, frumvarp um þjóðaratkvæðagreiðslu og frumvarp um ráðgefandi stjórnlagaþing.
Hún kynnti jafnframt áform um vinnslu gagna sem skilgreina eiga stöðu lykilstærða í samfélags- og efnahagsmálum en þessi úttekt er hluti af 100 daga áætlun ríkisstjórnarinnar.
Svandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra, kynnti þrjú frumvörp, sem lögð verða fyrir vorþing og Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra, lagði fram fimm mál. Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, lagði fram á ný frumvarp um eignaumsýslufélag en umfjöllun um það lauk ekki á síðasta þingi. Ennfremur fjallaði Steingrímur um Þjóðarbúskapinn, vorskýrslu ráðuneytisins um stöðu og horfur í efnahagsmálum.