Fjármálaráðuneytið spáir því að 10,6% samdrætti á yfirstandandi ári en að á næsta ári verði 0,6% hagvöxtur og 5% hagvöxtur árið 2011. Þetta er þó háð því, að áfram verði haldið með byggingu álvers í Helguvík og stækkun álversins í Straumsvík.
Ráðuneytið segir, að ef ekki verði farið í þessar framkvæmdir megi gera ráð fyrir 0,5% samdrætti á næsta ári en 2,5% hagvexti árið 2011.
Í þjóðhagsspá, sem ráðuneytið birti í janúar, var gert ráð fyrir 9,6% samdrætti á þessu ári og að landsframleiðsla yrði óbreytt á árinu 2010.
Í framreikningum fyrir árin 2012-2014 er reiknað með hóflegum hagvexti á tímabilinu, eða um 2,6% á ári að meðaltali, að verðbólga verði lítil og stöðug, eða 2,5%, smávægilegur halli verði á viðskiptajöfnuði, eða 1,5% af landsframleiðslu, og atvinnuleysi verði 4,1% af vinnuafli að meðaltali.
Fjármálaráðuneytið spáir því að atvinnuleysi verði áfram mikið næstu árin. Gert er ráð fyrir að atvinnuleysi verði að meðaltali 9% á þessu ári og 9,6% á árinu 2010 en árið 2011 fari að draga úr því og það mælist 7,5%.
Áætlað er að verðbólga verði að meðaltali 10,2% í ár en minnki hratt og verði 1,6% árið 2010 og 1,9% árið 2011. Gert er ráð fyrir að stýrivextir lækki hratt árið 2009 og verði 11,8% að meðaltali það ár, en 4,3% árið 2010 og 4,8% árið 2011.
Fjármálaráðuneytið segir, að óvissuþættir í þjóðhagsspánni séu fjölmargir og miklir og tengjast endurreisn bankakerfisins, afnámi hafta á gjaldeyrismarkaði, gengi krónunnar, fjárhagsstöðu heimila og fyrirtækja, breytingum á alþjóðlegu samstarfi, frekari stóriðjuframkvæmdum og ástandi á vinnumarkaði.