Kerfi sem sett var upp fyrr á þessu ári til að gera innlendum fiskvinnslufyrirtækjum kleift að bjóða í afla sem fluttur er óunninn úr landi hefur ekki virkað. Innan við 1% aflans hefur selst.
Meðal brýnna aðgerða sem kveðið er á um í samstarfsyfirlýsingu nýrrar ríkisstjórnar Samfylkingarinnar og VG er að knúið verði á um frekari fullvinnslu afla hérlendis. Það verði meðal annars gert með því að skoða hóflegt útflutningsálag á fisk og/eða að óunninn afli verði settur á innlendan markað.
Markmiðið er skýrt og leiðirnar gamalkunnar úr umræðunni en ekki kveðið fast að orði.
Frá því aflamarkskerfið var tekið upp og til ársins 2007 var í gildi sérstakur aukafrádráttur á aflamarki vegna afla sem fluttur var úr landi án þess að hann væri veginn áður hér á landi. Frádrátturinn, sem nefndur var útflutningsálag, var 10% síðustu árin.
Á árinu 2007 ákvað Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra að afnema þennan frádrátt. Það var gert í tengslum við samninga við Evrópusambandið sem fólu í sér lækkun tolla á íslenskum sjávarafurðum, sérstaklega humri og karfa. Þessu samkomulagi þarf væntanlega að breyta eða brjóta ef taka á útflutningsálag upp að nýju.
Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.