Ástarbréf og ástarjátningar munu skreyta glugga ýmissa verslana við Laugaveg frá og með deginum í dag og fram á sunnudaginn kemur.
Um er að ræða afrakstur verkefnisins Ástarbréf óskast! sem Sunna Dís Másdóttir, meistaranemi í Hagnýtri menningarmiðlun við Háskóla Íslands, hefur unnið í samvinnu við Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn.
Samkvæmt upplýsingum frá Sunnu Dís hófst söfnunin í byrjun mars og mun standa til ágústloka. Með sýningunni nú um helgina er ætlunin að veita vegfarendum innsýn í þá fjársjóði sem leynast í náttborðsskúffum og pósthólfum landsmanna en hún byggir á bréfum sem söfnuninni hafa þegar borist.
Bréfin á sýningunni eru flestöll nafnlaus en sendendur bréfanna, tölvupóstanna og skeytanna hafa veitt góðfúslegt leyfi sitt fyrir því að þau fái að koma fyrir sjónir annarra en þau voru upphaflega ætluð, með það í huga að ylja Íslendingum aðeins um hjartarætur.
Á sýningunni er þó einnig að finna bréf með nafni. Það er ritað af ljóðskáldinu Steini Steinarr árið 1931 þar sem hann játar Þórhildi Hafliðadóttur ást sína. Bréfið var afhent af Kristni Snæland, syni hennar.
Íslensk ástarbréf eru af ýmsum toga eins og göngutúrinn um Laugaveginn ætti að leiða í ljós. Á sýningunni er að finna sms-skeyti, Facebook-skilaboð, tölvupósta og handskrifuð ástarbréf upp á gamla mátann.
Nú á dögum einskorðast ástin ekki heldur við íslenska fold svo þar má einnig finna dönskuskotin bréf og skeyti á ensku, frönsku og sænsku.
Ástarbréfin má lesa í gluggum verslana við Laugaveg frá kl. 14 á morgun, fimmtudag 14. maí, til sunnudagskvölds 17. maí.