Atvinnuleysi mælist 9,1%

Reuters

Skráð atvinnuleysi í apríl 2009 var 9,1% og jókst úr 8,9% í mars, eða um 1,8%. Að meðaltali voru 14.814 manns atvinnulausir í apríl eða 268 fleiri að jafnaði en í mars. Á sama tíma á árinu 2008 var atvinnuleysi 1%, eða 1.717 manns að jafnaði, samkvæmt upplýsingum frá Vinnumálastofnun.

14,3% atvinnuleysi á Suðurnesjum

Atvinnuleysi er nú mest á Suðurnesjum 14,3% en minnst á Vestfjörðum 2,5%. Atvinnuleysi eykst um 3,8% á höfuðborgarsvæðinu en minnkar um 2,1% á landsbyggðinni. Mest dregur úr atvinnuleysi á Norðurlandi eystra eða um 79 manns og fer atvinnuleysi þar úr 8,8% í 8,3%. Einnig dregur úr atvinnuleysi á Austurlandi (úr 5,5% í 5,2%) og Suðurlandi (úr 7,4% í 7,2%).

Langtímaatvinnuleysi að aukast

Atvinnuleysi eykst um 1,5% meðal karla en 2,5% meðal kvenna. Atvinnuleysið er 10,4% meðal karla og 7,4% meðal kvenna.

Langtímaatvinnuleysi er nú tekið að aukast og þeir sem verið hafa á skrá lengur en 6 mánuði voru 3.269 í lok apríl en 1.749 í lok mars og eru nú um 20% allra á atvinnuleysisskrá. Þeim sem verið hafa atvinnulausir í meira en ár er þó ekki tekið að fjölga að ráði, voru 361 í lok apríl en 333 í lok mars.
Atvinnulausum 16‐24 ára hefur fækkað úr 3.631 í lok mars í 3.588 í lok apríl og eru þeir um 21% allra atvinnulausra í apríl eða svipað og í lok mars.

Þrátt fyrir að atvinnuleysi hafi aukist að meðaltali milli mars og apríl hefur atvinnulausum á skrá fækkað um 72 frá í lokum mars til loka apríl. Fækkunin kemur fram á landsbyggðinni þar sem fækkað hefur um 278 manns, en á höfuðborgarsvæðinu hefur fjölgað um 206 manns frá lokum mars til loka apríl.

Alls voru 687 laus störf hjá vinnumiðlunum í lok apríl sem er fjölgun um 67 frá því í mánuðinum áður þegar þau voru 620. Mest hefur fjölgað sölu‐ og afgreiðslustörfum sem eru 310 í lok apríl og einnig ósérhæfðum störfum, eru 155 í apríllok.

Rúmlega 2.100 útlendingar á atvinnuleysisskrá

Alls voru 2.104 erlendir ríkisborgarar án atvinnu í lok apríl, þar af 1.382 Pólverjar eða um 66% þeirra útlendinga sem voru á skrá í lok apríl. Langflestir þeirra voru starfandi í byggingariðnaði eða 863 (um 41% allra erlendra ríkisborgara á skrá).

19% í hlutastörfum

Samtals voru 3.169 af þeim sem voru skráðir atvinnulausir í lok apríl í hlutastörfum, þ.e. þeir sem eru í reglubundnum hlutastörfum eða með tilfallandi eða tímabundið starf á síðasta skráningardegi í apríl. Þetta eru um 19% af þeim sem voru skráðir atvinnulausir í lok apríl.
Af þeim 3.169 sem voru í hlutastörfum í lok apríl eru 2.137 einstaklingar sem sóttu um atvinnuleysisbætur skv. áður nefndum lögum og hefur fækkað lítið eitt frá fyrra mánuði, en þeir voru 2.202 í lok mars og 2.105 í lok febrúar.

Í apríl voru 1.330 sjálfstætt starfandi skráðir á atvinnuleysisskrá vegna samdráttar í rekstri skv. áður nefndum lögum. Þeim hefur fjölgað jafnt og þétt, voru 1.274 í lok mars og 1.017 í lok febrúar.

Spá 8,8-9,3% atvinnuleysi í maí

Yfirleitt batnar atvinnuástandið frá apríl til maí, m.a. vegna upphafs árstíðasveiflu. Í fyrra var atvinnuleysið svipað í báðum mánuðum og mældist 1%. Nú er hins vegar mun meiri samdráttur í hagkerfinu.
Gera má ráð fyrir talsverður fjölda skólanema á atvinnuleysisskrá, en minna er um ráðningar vegna atvinnuástandsins nú en undanfarin ár.

Á móti kemur að meira er um að boðið sé upp á sumarnám í ýmsum háskóladeildum. Þá koma nemendur inn á atvinnuleysisskrá seint í mánuðinum og vega þar af leiðandi lítið í skráðu atvinnuleysi maímánaðar.
Erfitt er að áætla atvinnuleysi um þessar mundir vegna mikillar óvissu í efnahagslífinu, en líklegt er að atvinnuleysið í maí 2009 muni lítið breytast og verða á bilinu 8,8%‐9,3%, að því er segir á vef Vinnumálastofnunar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert