Staðfest tilfelli inflúensu A (H1N1) voru alls 5.935 í morgun í 31 ríki í heiminum samkvæmt upplýsingum Sóttvarnarstofnunar Evrópusambandsins. Þar á meðal eru tvö staðfest tilfelli í Finnlandi og þar með hefur flensan stungið sér niður alls staðar á Norðurlöndum nema á Íslandi, Grænlandi og í Færeyjum.
Staðfest dauðsföll vegna inflúensunnar eru orðin 63 talsins, langflest í Mexíkó eða 58. Þrjú dauðsföll eru staðfest í Bandaríkjunum, eitt í Kanada og eitt í Kosta Ríka.
Sífellt fleiri lönd bætast við
Ljóst er að veiran hefur dreifst til nær allra heimsálfa og smit innan landa hefur verið staðfest en ekki í miklu mæli. Flestir hafa greinst í Bandaríkjunum, eða 3.009, en sífellt eru fleiri lönd að bætast í hópinn, samkvæmt upplýsingum frá sóttvarnalækni og almannavarnadeild ríkislögreglustjóra.
Vísindamenn hafa ályktað að smithæfni hinnar nýju inflúensuveiru sé heldur meiri en smithæfni árstíðabundinnar inflúensu. Af óútskýrðum ástæðum virðast sýkingar af hinni nýju veiru yfirleitt ekki vera alvarlegar utan Mexíkó en þar í landi virðist dánartíðnin vera hærri en sést í árstíðabundinni inflúensu. Í Mexíkó er dánartíðni hinnar nýju inflúensu talin vera á bilinu 0,4-1,5% en dánartíðni árstíðabundinnar inflúensu er talin vera um 0,1%. Til samanburðar má nefna að dánartíðnin í spænsku veikinni var talin vera á bilinu 2-3% en í heimsfaraldri 1957 og 1967 var dánartíðnin undir 0,2%.
Læknir hvattir til að senda sýni til rannsóknar
Of snemmt er að spá fyrir um hversu miklum skaða hin nýja veira mun valda í Evrópu en búast má við að hún dreifist um öll lönd.
Hér á landi hefur veiran ekki greinst enn sem komið er og enginn lagst inn á Landspítalann með alvarleg inflúensulík einkenni. Viðbúnaðarstig hér á landi er óbreytt frá því sem verið hefur. Læknar eru hvattir til að senda sýni frá sjúklingum með inflúensulík einkenni til greiningar og hefja meðferð með veirulyfjum ef sjúklingur er með alvarleg einkenni. Ekki er ráðlagt að setja einstaklinga á fyrirbyggjandi meðferð að svo stöddu.
Framvirkur samningur um kaup á bóluefni
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur enn ekki lýst yfir heimsfaraldri en Íslendingar eru með framvirkan samning um kauprétt á bóluefni gegn heimsfaraldri inflúensu. Um 5-6 mánuði tekur að markaðssetja nýtt inflúensubóluefni.
Í hönd fer vinna á vegum almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra og sóttvarnalæknis við að endurskoða og betrumbæta fyrirliggjandi viðbragðsáætlun gegn heimsfaraldri. Í gangi er vinna við að kanna birgðastöðu nauðsynjavara hér á landi.