Samkvæmt nýrri þjóðhagsspá efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytisins, sem birt var í gær, eru heildarskuldir íslenska ríkisins áætlaðar ríflega landsframleiðslan hér á landi, eða í kringum 1.500 milljarðar króna. Það svarar til þess að heildarskuldirnar séu tæplega 103% af landsframleiðslunni.
Í svonefndum Maastricht-sáttmála eru skilyrði fyrir aðild ríkja að myntsamstarfi Evrópusambandsins. Meðal skilyrða er að skuldir ríkis séu ekki umfram 60% af landsframleiðslu viðkomandi ríkis. Skuldir íslenska ríkisins eru því nú töluvert þar framyfir.
Í þjóðhagsspánni segir að áætlanir fjármálaráðuneytisins geri ráð fyrir því að árið 2013 verði brúttóskuldir ríkissjóðs orðnar um 95% af landsframleiðslunni. Þá er í spánni sýnt dæmi um það hvernig hægt yrði að ná því markmiði að skuldirnar yrðu 60% af landsframleiðslunni á 30 árum, eða árið 2042.
Í þessu sambandi er rétt að hafa í huga að þrátt fyrir Maastricht-skilyrðin, hefur verið litið framhjá þeim hluta þeirra sem snýr að heildarskuldum ríkja sem hlutfall af landsframleiðslu þeirra. Það var til að mynda gert árið 1998. Reyndar hefði rúmum helmingi þeirra ríkja sem eiga aðild að evrusvæðinu verið neitað um aðild ef farið hefði verið eftir þessu tiltekna ákvæði. Í sáttmálanum er tekið fram að ef heildarskuldirnar eru yfir 60% af landsframleiðslunni við aðild að myntsvæðinu verði hlutfallið að fara lækkandi og nálgast 60% hlutfallið með „viðunandi hraða“.
Meðal ríkja sem hefði verið neitað um aðild að myntsamstarfinu ef farið hefði verið eftir skilyrðunum um að heildarskuldir væru innan við 60% af landsframleiðslunni eru Þýskaland, Austurríki og Grikkland. Skuldir Þýskalands voru einungis rétt liðlega 60% af landsframleiðslunni þegar sótt var um og það sama á við um Austurríki. Í báðum tilvikum hafði hlutfallið þó aukist milli ára. Heildarskuldir Grikklands voru hins vegar yfir 113% af landsframleiðslunni þegar umsóknin var samþykkt.