Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu stöðvaði tvær kannabisræktanir í Hafnarfirði í gær. Alls lagði lögreglan hald á fjögur hundruð plöntur. Í báðum tilvikum var ræktunin í iðnaðarhúsnæði. Fjórir karlmenn voru handteknir í tengslum við málin.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu stöðvaði kannabisræktun í iðnaðarhúsnæði í Hafnarfirði um kvöldmatarleytið í gær. Við húsleit á áðurnefndum stað fundust 170 kannabisplöntur á ýmsum stigum ræktunar. Tveir karlar, annar á þrítugsaldri en hinn á fertugsaldri, voru handteknir í tengslum við rannsókn málsins.
Fyrr um daginn stöðvaði lögreglan kannabisræktun í iðnaðarhúsnæði í Hafnarfirði. Við húsleit á áðurnefndum stað fundust 230 kannabisplöntur á ýmsum stigum ræktunar. Tveir karlar á þrítugsaldri voru handteknir í tengslum við rannsókn málsins. Við húsleitir á heimilum þeirra fannst talsvert af marijúana, samkvæmt upplýsingum frá lögreglu.