Skipuleggjendur átaksins Hjólað í vinnuna hugðust bjóða þátttakendum upp morgunhressingu í morgun á leið til vinnu, en urðu að blása uppátækið af vegna hvassviðris.
„Við hefðum ekki átt von á því að veðrið gæti sett strik í reikninginn á þessum tíma árs,“ segir Jóna Hildur Bjarnadóttir, sviðsstjóri almenningsíþróttasviðs Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, sem hefur umsjón með átakinu Hjólað í vinnuna.
Segist hún hafa mætt ásamt öðrum klukkan sex í morgun til að setja upp tjöld til að hýsa morgunhressinguna, en um leið og fyrsta tjaldinu hafi verið komið upp hafi því fokið um koll. „Þá ákváðum við að fresta þessu,“ segir Jóna.
Spurð hvort hún viti til þess að einhverjir hafi ætlað sér að þiggja gott boð um morgunhressingu svarar Jóna því játandi og sagðist þegar hafa fengið nokkra tölvupósta frá liðsstjórum sem mætt hefðu með hópa sína á þá staði sem búið var að auglýsa sem áningastaði.
Að sögn Jónu verður miðvikudaginn 27. maí nk. gerð önnur tilraun til þess að bjóða þátttakendum morgunhressingu á þremur stöðum í borginni. Þeir staðir eru hjá Geirsnefi við Elliðavog, við brúna yfir Kringlumýrarbrautina Nauthólsmegin og við gatnamót Sæbrautar og Kringlumýrarbrautar. Þá verður boðið upp á ávexti og kaffi milli kl. 07.30-09.30.
Þátttakan í átakinu Hjólað í vinnuna hefur þegar slegið öll met, en ennþá er hægt að skrá þátttöku sína. Að sögn Jónu voru 533 skráðir til leiks þegar átakinu var fyrst hleypt af stokkunum fyrir sjö árum. Í fyrra voru alls 7.065 skráðir, en nú þegar eru skráðir til leiks 7.160 manns.