Öruggir bílar fara úr landi

Reuters

„Það var jákvætt að stjórnvöld skyldu gera eitthvað til að létta undir með skuldugum heimilum og gera þeim kleift að selja bíla úr landi. En aðgerðin virkaði aðeins fyrir þröngan hóp því erfitt er fyrir einstakling að selja bílinn sinn beint út, auk þess hvíla lán á mörgum af þeim bílum sem mest liggur á að selja og ef lánið er hærra en andvirði bílsins gengur salan ekki,“ segir Jón Trausti Ólafsson, markaðsstjóri Heklu.

„Þegar stjórnvöld ákváðu að endurgreiða virðisaukaskatt og vörugjöld af notuðum bílum sem seldir voru úr landi var endurgreiðslan hlutfallslega mest fyrir bíla í verðflokknum frá þremur og upp í fimm milljónir króna og þeim mun nýrri sem bíllinn var, þeim mun hærri endurgreiðsla. Þetta hefur valdið því að nokkuð af öruggum, umhverfisvænum og nýlegum bílum hefur farið úr landi, fyrir tilstilli þessarar aðgerðar, en eitt af markmiðum aðgerðarinnar var einmitt hið gagnstæða, það er að auka hlutfall umhverfisvænna og öruggari ökutækja í umferð.

Þetta auk gríðarlegs samdráttar í sölu á þessu og síðasta ári gerir það að verkum að í haust mun vafalítið skorta notaða bíla af árgerðinni 2008 og 2009.“

Að mati Jóns Trausta gætu íslensk stjórnvöld til dæmis fetað í fótspor þýskra stjórnvalda sem greiða 2.500 evrur með gömlum bíl þegar nýr er keyptur, eða um 425.000 krónur á núverandi gengi og þar gefa seljendur bíla samsvarandi afslátt af nýja bílnum.

„Hér á landi mætti hugsa sér að greiða 100 til 200.000 króna endurgreiðslu fyrir gamla, óörugga og óumhverfisvæna bíla sem skilað er inn til endurvinnslu. Slík endurgreiðsla kynni að auka sölu á nýjum bifreiðum um 15 til 20% nú þegar, sem og að auka sölu á notuðum bílum umtalsvert.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka