Misvægi atkvæða milli höfuðborgarsvæðis og landsbyggðar hefur verið pólitískt hitamál um áratugaskeið en svo virðist sem stjórnarflokkarnir hafi náð samkomulagi í málinu, flestum að óvörum.
Eða hvað?
Samstarfsyfirlýsing Vinstri grænna og Samfylkingarinnar er ekki afdráttarlaus í þessum efnum. Þar segir: „Undirbúnar verði breytingar á kosningalögum með það að markmiði að jafna vægi atkvæða og koma til móts við ábendingar Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu um framkvæmd kosninga.“
Orðalagið er nógu loðið til að ríkisstjórnin gæti ákveðið að draga úr misvæginu, án þess leggja til að það verði gert að engu. Hún gæti líka, í rólegheitum, hafið undirbúning að breytingum.
Málið var lítið sem ekkert rætt í kosningabaráttunni og því liggur í sjálfu sér ekki mikið fyrir um vilja þingheims í þessum efnum.
Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra sagði á Akureyri í gær að þetta væri nefnt sem markmið og síðan myndi ráðast hvaða farveg málið færi í gagnvart endurskoðun stjórnarskrárinnar, hvort það yrði rætt á ráðgefandi stjórnlagaþingi. „Þetta er eitthvað sem menn verða bara að setjast yfir,“ sagði hann.
Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.