Breskur banki, Blackfish Capital í eigu Rowland-fjölskyldunnar, hyggst kaupa Kaupþing í Lúxemborg. Þetta er samkvæmt heimildum Morgunblaðsins. Fjölskyldan hefur gert bindandi kauptilboð í bankann sem er talið mun hagstæðara en líbíski fjárfestingasjóðurinn hafði gert. Sá hafði forgangsrétt að kaupunum sem er nú runninn út.
Fjölskyldan vill reka einkabankaþjónustu og eignastýringu.
Samkvæmt heimildum hefur ekki enn verið samið við helstu kröfuhafa um kaupin, en þar sem kauptilboðið er hagstæðara en áður bauðst auk þess sem búist er við að þeir fái allt að 90% af kröfum sínum greiddar, er talið að þeir taki vel í söluna.
Viðskiptavinir bankans fá brátt bréf þar sem þeim verður tilkynnt að eignum þeirra sé borgið.
Kaupþing í Lúxemborg var dótturfélag Kaupþings hér á landi. Bankinn heyrir undir yfirvöld í Lúxemborg sem hafa síðan í október reynt að selja bankann. Hann er í greiðslustöðvun sem var í byrjun apríl framlengd til 9. júní.
Samkvæmt fyrri fréttum Morgunblaðsins er eigið fé Kaupþings í Lúxemborg neikvætt um 80 milljónir evra en yfirvöld í Lúxemborg, belgíska ríkið og tryggingarsjóður innstæðueigenda í Lúxemborg hafa þegar samþykkt að lána bankanum 600 milljónir evra svo bankinn geti staðið við skuldbindingar gagnvart innstæðueigendum.