Þór Saari, þingmaður Borgarahreyfingarinnar, kveðst ekki sammála því mati Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, að þar sem ekki sé til staðar nægjanlega traust samkomulag á milli stjórnarflokkanna um Evrópusambandsmálið sé ekki komið að þeim tímapunkti að hefja samráð við stjórnarandstöðuna.
„Ég er ekki sammála því. Mér finnst afstaða Bjarna lýsa ákveðnu skilningsleysi hjá sjálfstæðismönnum. Þeir eru vanir annars konar vinnubrögðum. Þannig að ég fagna því ef fleiri mál ríkisstjórnarinnar verða afgreidd með þessum hætti að ríkisstjórnin sé ekki talin óstarfhæf af því hún sé ekki algjörlega sammála í öllum málum,“ segir Þór og heldur áfram.
„Það sem mér finnst þeir vera að gera í stjórninni er að reyna afgreiða þetta mál á svolítið nýstárlegan en jafnframt þroskaðri hátt. Hér er verið að reyna að láta Alþingi taka ákvörðun um framgang málsins. Þetta er ekki þessi hefðbundna leið að leggja ekki mál fyrir þingið nema að það sé búið að geirnegla það að hálfu framkvæmdavaldsins að það verði samþykkt. Þannig að þarna er verið að færa stjórnkerfið að einhverju leyti í átt til þingræðisins sem var nú ekki vanþörf á.“
Sér engar hindranir í veginum
Þór kveðst ekki sjá neinar hindranir í vegi fyrir stuðningi Borgarahreyfingarinnar við tillöguna, að uppfylltum skilyrðum hennar.
„Við höfum séð þessi tillögudrög og gert athugasemdir við þau og lagt fram okkar skilyrði fyrir því að veita þessu máli framgang. Þeim var vel tekið af utanríkisráðherra í morgun og ekki annað að merkja á þeim bæ en að þau yrðu unnin í þetta mál með einhverjum hætti.“