Alþingi sett á morgun

Alþingi Íslendinga.
Alþingi Íslendinga.

Alþingi verður sett á morgun klukkan 13:30 og hefst þingsetningarathöfnin með guðsþjónustu í Dómkirkjunni. Siðmennt félag siðrænna húmanista á Íslandi býður þeim alþingismönnum sem ekki kjósa að ganga til kirkju að koma á Hótel Borg þar sem flutt verður hugvekja um mikilvægi góðs siðferðis í þágu þjóðar, að því er segir í tilkynningu frá Siðmennt.

Forseti Íslands, biskupinn yfir Íslandi, forseti Alþingis, ráðherrar og alþingismenn ganga fylktu liði til kirkjunnar kl. 13.25. Séra Helga Soffía Konráðsdóttir, prestur í Háteigskirkju, predikar. Séra Einar Sigurbjörnsson þjónar fyrir altari ásamt biskupi Íslands,Karli Sigurbjörnssyni.

Að guðsþjónustu lokinni ganga forseti Íslands, biskupinn yfir Íslandi, forseti Alþingis, ráðherrar, alþingismenn og aðrir gestir til þinghússins.

Forseti Íslands setur Alþingi, 137. löggjafarþing, og að því loknu tekur starfsaldursforseti, Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra, við fundarstjórn, og stjórnar kjöri kjörbréfanefndar. Þingsetningarfundi verður síðan frestað til klukkan fjögur síðdegis.

Þegar þingsetningarfundi er fram haldið klukkan fjögur síðdegis verða kjörbréf afgreidd og drengskaparheit unnin. Starfsaldursforseti stjórnar síðan kjöri forseta Alþingis, kosnir verða varaforsetar og kosið verður í fastanefndir Alþingis og til Íslandsdeilda þeirra alþjóðasamtaka sem Alþingi á aðild að. Að síðustu verður hlutað um sæti þingmanna, að því er segir í tilkynningu.

Stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana verða mánudagskvöldið 18. maí kl. 19:50
 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert