„Gordon Brown er enn að. Svo virðist vera - af einhverri dularfullri ástæðu - að í hvert skipti sem hann lendir í vandræðum heimafyrir ræðst hann á Ísland."
Þannig hefst grein, sem Eiríkur Bergmann, stjórnmálafræðingur, skrifar á vef breska blaðsins Guardian í dag. Vísar hann til ummæla, sem Brown lét falla í breska þinginu í síðustu viku þar sem hann sagði að íslensk stjórnvöld bæru ábyrgð á tapi sjúkrahússins Christie's og að bresk stjórnvöld hefðu ekki haft eftirlitsskyldu.
Eiríkur segir yfirlýsingar breska forsætisráðherrans vera alrangar og fer yfir það.
„Berska ríkisstjórnin ber sökina á þeim vandræðum, sem Christie's stendur frammi fyrir. Enn einu sinni virðist Brown reyna að bjarga eigin pólitíska skinni með því að kenna Íslandi um... Þegar horft er á málið, með erlendum augum að minnsta kosti, virðst merkilegt að jafn lítilsgildur stjórnmálamaður og Brown geti verið leiðtogi Stóra-Bretlands," segir Eiríkur.