Ekki er minnsta ástæða til þess að halda leynd yfir þeim drögum að þingsályktunartillögu ríkisstjórnarinnar sem lögð voru fram á fundi með stjórnarandstöðunni í gær, að sögn Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins.
„Nú fyrst ríkisstjórnin er búin að koma sér saman um grundvöll aðildarumsóknar að Evrópusambandinu, þá er eðlilegt að hún leggi þá tillögu fram til kynningar," segir Bjarni.
Hann segir enga kröfu af sinni hálfu að leynd hvíli yfir ferlinu, það eigi þvert á móti að vera opið og gagnsætt. „Það er alveg fráleitt að ríkisstjórnin treysti sér ekki til að greina frá helstu forsendum fyrir aðildarumsókn. Er ekki kominn tími til að ríkisstjórnin sýni eða leggi fram efni þess samkomulags sem tekist hefur milli stjórnarflokkanna í þessu efni?"