Ekki var búið að laga orðalag ESB-plaggsins

Frá fundi forsætisráðherra með fulltrúum stjórnarandstöðunnar í gær.
Frá fundi forsætisráðherra með fulltrúum stjórnarandstöðunnar í gær. mbl.is/Golli

Birgitta Jónsdóttir, þingflokksformaður Borgaraflokksins, segir að leyndin sem ríkir um þingsályktunartillögu um aðildarviðræður við Evrópusambandsins skýrast af því að það átti eftir að laga orðalag í því áður en það yrði sent á fjölmiðla. Þetta kemur fram á bloggvef Birgittu sem sat fund Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, með fulltrúum stjórnarandstöðunnar síðdegis í gær.

Fundartíminn fór mest í orðræðu Sigmundar Davíðs

„ Annars var þessi fundur frekar furðulegur og fór stór hluti hans í orðræðu Sigmundar Davíðs um Framsóknarherbergið. Finnst reyndar alveg furðulegt að einhver þingflokkur geti átt herbergi í þinghúsinu. Auðvitað eiga þingflokksherbergi að vera notuð útfrá stærð þingflokka ekki útfrá ímynduðu eignarhaldi á einhverju sem með sanni tilheyrir þeim sem þjóðin kýs inn á þing hverju sinni. Það er auðvitað alltaf breytilegt og ófyrirséð.

Eðlilegast væri að láta starfsfólk þingsins um að útdeila þessum herbergjum eftir stærð flokka, ekki útfrá tilfinningasemi. Sem þau reyndu í þessu tilfelli og hafa fengið bágt fyrir. Víðsvegar um heim er þingflokkaherbergjum útdeilt eftir stærð flokka en hér hefur það verið þannig að tveir flokkar hafa hér öllu ráðið og útdeilt ekki bara til sín öllu því besta er tengist störfum þingsins heldur líka í samfélaginu," skrifar Birgitta.

Gagnrýnir leynd ríkisstjórnarinnar

Hún gagnrýnir þá leynd sem hvílir yfir þingsályktunartillögunni. „Ég held að ef hægt verði að vinna útfrá málefnum á þessu þingi að við getum komið miklu meira í verk en ef unnið er eftir hefðbundnum argaþras leiðum. Auðvitað á stjórnarandstaða að veita þétt aðhald og sporna við fótum ef unnið er þvert á stefnu hvers og eins flokks. En það er ekki tími né ráð til að eyða miklum tíma í hefðbundið málþóf - skora á alla sem sitja inni á þingi að setja málefnin ofar flokkslínum og hugsa fyrst og hag almennings - síðan um hag flokksins sem viðkomandi tilheyrir," skrifar Birgitta á bloggvef sinn.

Sjá nánar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka