Hvetur verkafólk að mótmæla ákvörðun OR

Vilhjálmur Birgisson
Vilhjálmur Birgisson SteinarH

Formaður Verkalýðsfélags Akraness, Vilhjálmur Birgisson, skorar á verkafólk að mótmæla ákvörðun Orkuveitu Reykjavíkur að krefja starfsmenn OR um að fresta áður umsömdum launahækkunum á sama tíma og fyrirtækið ákveður að greiða eigendum út 800 milljónir króna í arð.

„Það er með hreinustu ólíkindum að til standi að greiða arð á sama tíma og starfsmenn hafa verið krafðir um að fresta áður umsömdum launahækkunum. Mun OR spara sér um 400 milljónir á því, en ætlar sér á sama tíma að greiða arð upp á 800 milljónir þó svo fyrirtækið hafi tapað 73 milljörðum á síðasta ári. Rétt er að minna á það að gjaldskrá Orkuveitu Reykjavíkur hækkaði um 10% í endaðan september á síðasta ári. Með öðrum orðum, fyrirtæki varpa sínum vanda stöðugt út í verðlagið á meðan íslenskir launþegar verða fyrir gríðarlegri kjaraskerðingu og stóraukinni greiðslubyrði," skrifar Vilhjálmur á vef verkalýðsfélagsins.

Hann segir það rétt hjá Hjörleifi Kvaran, forstjóra OR, að arðgreiðslurnar renna til eigenda OR sem eru Reykjavíkurborg, Akraneskaupstaður og Borgarbyggð, en það réttlæti hins vegar á engan hátt það að starfsmenn séu látnir taka á sig launalækkanir til þess eins að hægt sé að greiða út arðgreiðslur til eigenda.

„Krafan er skýr, að stjórn OR standi við þær launahækkanir sem samið hefur verið um við stéttarfélögin og láti þær taka tafarlaust gildi, því ef hægt er að greiða út arð þá er hægt að standa við áður umsamdar launahækkanir," segir Vilhjálmur á vef Verkalýðsfélags Akraness.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert