Hugsanlegt er að Bókabúð Máls og menningar verði flutt úr húsnæðinu við Laugaveg 18, þar sem verslunin hefur verið til húsa síðan 1962. Ástæðan er sú að fyrirtækið getur ekki greitt það leiguverð sem eigendur húsnæðisins fara fram á. „Allt frá því að eigandinn keypti húsið hefur hann viljað hækka leiguna, sem við teljum að reksturinn myndi aldrei geta staðið undir. Við viljum náttúrlega alls ekki fara, en það þarf auðvitað að vera rekstrargrundvöllur,“ segir Elsa María Ólafsdóttir verslunarstjóri. „Ég vona að það finnist einhver flötur á þessu en ég veit þó ekki hvort ég hef ástæðu til að vera bjartsýn,“ segir Elsa. Samningaviðræður standa yfir. |