Neitar að staðfesta breytingar á skipulagi

Urriðafoss í Þjórsá
Urriðafoss í Þjórsá

Svandís Svavarsdóttir, nýr umhverfisráðherra Vinstri grænna, neitar að staðfesta breytingar á aðalskipulagi Skeiða- og Gnúpverjahrepps og segir, að kynna þurfi breytinguna betur fyrir íbúum sveitarfélagsins.

Fram kemur á vefnum Sunnlendingi.is, að Svandís hafi sent  hreppnum bréf, dagsett 12. maí en ný ríkisstjórn tók við 10. maí. Kolbrún Halldórsdóttir, forveri Svandísar í embætti, hafði tilkynnti sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps skömmu fyrir þingkosningarnar í lok apríl, að hún væri að íhuga að staðfesta ekki breytinguna á aðalskipulaginu.

Umrædd breyting á aðalskipulaginu felst í því að heimilt verði að tvískipta fyrirhugðum og samþykktum virkjunarframkvæmdum. Skipulagsstofnun hefur fallist á breytinguna og mælti með því að ráðherra gerði slíkt hið sama þótt kynningin á breytingunni hafi ekki verið nákvæmlega með þeim hætti sem mælt er fyrir um í lögunum.

Að sögn Sunnlendings kemur fram í bréfi ráðherra, að umhverfisráðuneytið beini þeim tilmælum til Skipulagsstofnunar að framvegis verði þess gætt að stofnunin víki ekki að neinu leyti frá kröfum um formlega kynningu á skipulagsbreytingum.

Að óbreittu þarf Skeiða- og Gnúpverjahreppur nú að hefja lögformlegt kynningarferli og fyrst að því loknu mun Svandís Svavarsdóttir taka afstöðu til skipulagsbreytinganna.

Sunnlendingur.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert