Óbeinar kannabisreykingar ekki saknæmar

Vindlingur úr kannabis
Vindlingur úr kannabis

Hæstiréttur hefur sýknað karlmann af kröfu ákæruvaldsins um refsingu en maðurinn var ákærður fyrir að aka bíl eftir að hafa neytt fíkniefna með óbeinum kannabisreykingum nóttina áður.

Í dómi Hæstaréttar er vísað til þess að ákæruvaldið hafi talið manninn sýna af sér saknæma og refsiverða háttsemi er hann ók bíl þar sem hann hefði nóttina áður kosið að sitja inni í lokaðri bifreið í allt að hálfa klukkustund á meðan aðrir, sem voru í bifreiðinni, reyktu kannabis.

Maðurinn bar því við fyrir héraðsdómi að hann hefði ekki áttað sig á því að vera hans í bílnum, þar sem aðrir reyktu kannabis, gæti leitt til þess að reykurinn hefði áhrif á líkamskerfi hans. Hæstiréttur vísar einnig til skýrslu dósents í eiturefnafræði, sem bar fyrir héraðsdómi að hann gæti ekki fullyrt hvort dvöl við mjög háan styrk kannabisefnis í andrúmslofti í 15 til 20 mínútur væri nægjanleg til að efni fyndust í þvagi.

Hæstiréttur taldi ekki sannað að maðurinn hefði vitað eða mátt vita að dvöl hans í bíl, þar sem neytt var kannabisefnis með reykingum, myndi leiða til þess að  leifar ávana- og fíkniefna yrðu í þvagi hans um hálfum sólarhring síðar. Var akstur mannsins því ekki talinn saknæmur. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert