Ölfuss hræðist fyrningarleiðina

Þorlákshöfn.
Þorlákshöfn. mats.is

Bæjarráð Sveitarfélagsins Ölfuss skorar á ríkisstjórn Íslands að falla frá öllum hugmyndum um kollsteypu í sjávarútvegsmálum. Það ítrekar að mikilvægt sé að sveitarfélögin í landinu komi að stefnumótun í atvinnumálum, eins og fram komi í samstarfsyfirlýsingu Samfylkingarinnar og Vinstri grænna, og lýsir yfir áhuga sínum á að koma að slíkri vinnu.

„Sú leið sem ríkisstjórnin hyggst fara í innköllun á aflaheimildum mun höggva stórt skarð í sjávarútveginn og draga úr líkum þess að hann þróist, byggi sig upp og skapi atvinnu fyrir íbúa landsbyggðarinnar eins og hann hefur gert á undanförnum árum,“ segir í ályktun bæjarráðsins frá því í morgun.

„Með því að gera svo víðtækar breytingar á atvinnugrein sem er jafn mikilvæg og sjávarútvegur er ríkisstjórnin að setja þessa atvinnugrein í mikla óvissu og enn og aftur á að gera það á kostnað landsbyggðarinnar. Fyrningarleiðin mun að öllum líkindum leiða til þess að sjávarútvegurinn mun hætta því uppbyggingarstarfi sem hann hefur verið í á undanförnum árum með endurnýjun fiskiskipaflotans, fiskvinnsluhúsa og vöruþróun með aukinni verðmætasköpun. Fyrningarleiðin mun draga úr framþróun í sjávarútvegi sem mun bitna á þjónustufyrirtækjum og íbúum sjávarbyggðanna.“

Sjálfstæðismenn eru í meirihluta bæjarstjórnar Ölfuss en bæjarráðið samþykkti ályktunina samhljóða.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka